Um A4
A4 rekur sögu sína meira en fjóra áratugi aftur í tímann og eins og nafn okkar gefur til kynna, þá liggja rætur okkar þjónustu við fyrirtæki og einstaklinga varðandi rekstrarvörur fyrir skrifstofuna. Við störfum á bæði einstaklings- og fyrirtækjamarkaði á Íslandi og leggjum metnað okkar í að veita afburða þjónustu með djúpri þekkingu á vöruframboði okkar og metnaðarfullum stafrænum lausnum.
Í dag leggur A4 áherslu á að vera í fararbroddi þegar kemur að vörum fyrir skapandi stundir, auk þess að styðja vel við okkar hefðbundna markað. Slagorð okkar “Fyrir skapandi líf” endurspeglar þá áherslu okkar að bjóða lausnir fyrir allt það sem snýr að sköpun. Skapandi lausnir, skapandi hugsun, skapandi vinnustaði og skapandi umhverfi.
Sköpun á vinnustaðnum, þar sem við bjóðum lausnir til þess að ýta undir og styðja skapandi hugsun og starfsemi. Við bjóðum húsgögn sem aðlaga sig að nútíma vinnustöðum, þar sem sveigjanleiki, samskipti og sköpun skipta miklu máli.
Sköpun á heimilinu, þar sem við leggjum áherslu á að bjóða skapandi vörur fyrir skemmtilegar samverustundir. Við bjóðum úrval af vörum frá gæða framleiðendum til þess að þú eigir betri stundir með börnunum, maka og sjálfum þér. Vörur sem gefa þér frí frá skjánum, örva ímyndunaraflið og veita þér tækifæri til þess að slaka á.
Við hjá A4 leggjum metnað í að bjóða gæðavörur þar sem öll áhersla er á að hugað sé að umhverfisþáttum og samfélagslegri ábyrgð. Við viljum líka leggja okkar af mörkum, við erum jafnlaunavottað fyrirtæki sem leggur áherslu á að lágmarka umhverfisfótsporið af starfsemi okkar. Við teljum starfsfólk okkar framúrskarandi sem endurspeglast í ánægðum viðskiptavinum okkar og góðum starfsanda.
A4 er með starfsemi á átta stöðum á landinu. Skrifstofur okkar og vöruhús er staðsett að Köllunarklettsvegi. Við rekum fjórar verslanir á höfuðborgarsvæðinu; í Skeifunni, Kringlunni, Smáralind og Hafnarfirði. Við rekum jafnframt verslanir á Akureyri, Egilsstöðum og Selfoss.
Jafnlaunastefna
STE-03 Jafnlaunastefna Egilsson ehf.
Ábyrgðaraðili: Mannauðsstjóri
- Markmið
Jafnlaunastefnan er unnin í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynja og er hluti af launastefnu Egilsson ehf. Jafnlaunastefnan byggist á Jafnlaunastaðli ÍST 85:2012 og er órjúfanlegur hluti af launastefnu fyrirtækisins. Forstjóri samþykkir stefnuna en mannauðsstjóri ber ábyrgð á að framfylgja henni.
1.gr.
Jafnlaunastefna Egilsson ehf. er samofin launastefnu fyrirtækisins og er henni ætlað að tryggja að jafnréttis sé gætt við allar launaákvarðanir. Með því er átt við þá stefnu að greiða starfsfólki jöfn laun fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf samkvæmt skilyrðum jafnréttislaga sem og þeim kröfum sem fram koma í jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012. Starfsfólk skal njóta jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar.
Laun eru í 8. tölulið 2. gr. jafnréttislaga skilgreind sem almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans. Kjör eru í 9. tölulið 2. gr. jafnréttislaga skilgreind sem laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár.
2.gr.
Egilsson ehf. hefur innleitt verklag og skilgreint viðmið við ákvörðun launa þar sem hver og einn fær greitt fyrir starf sitt út frá verðmæti þess óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum.
3.gr.
Framkvæmdastjórar og aðrir stjórnendur skulu vera meðvitaðir um að stöðugar umbætur þurfa að eiga sér stað og að setja þurfi fram jafnlaunamarkmið og rýna jafnlaunakerfið árlega. Jafnlaunamarkmið skulu endurskoðuð út frá niðurstöðum launagreiningar. Stjórnendur skulu einnig skuldbinda sig til að viðhalda stöðugum umbótum, eftirliti og bregðast við óútskýrðum launamun og þeim frávikum sem koma fram við rýni á jafnlaunakerfinu.
Mannauðsstjóri ber ábyrgð á jafnlaunakerfi Egilsson ehf. Hann ber einnig ábyrgð á jafnlaunastefnu og að þeim lagalegu kröfum og öðrum kröfum sem tengjast jafnlaunakerfinu sé framfylgt, s.s. fylgni við viðeigandi lög, reglur og kjarasamninga sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta á fundi fylgni við lög. Mannauðsstjóri er ábyrgur fyrir innleiðingu og viðhaldi jafnlaunakerfisins í samræmi við staðalinn ÍST 85:2012.
4.gr.
Í kjölfar árlegrar launagreiningar, þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf og athugað hvort mælist munur á launum eftir kyni, þá eru helstu niðurstöður kynntar fyrir starfsfólki og gert grein fyrir hvort til staðar sé kynbundinn launamunur og ef svo er, hvernig hann verði jafnaður. Þá er jafnlaunastefnan aðgengileg almenningi á ytri vef fyrirtækisins.
- Tilvísanir og athugasemdir
ÍST85:2012 – Kafli 4.2
Umhverfisstefna A4
A4 leitast eftir að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og fylgir öllum lagalegum kröfum á sviði umhverfismála.
A4 endurnýtir og endurvinnur eftir fremsta magni allt það sem til fellur, til að lágmarka magns sorps eins og kostur er.
A4 Leggur áherslu á góða umgengni við umhverfið og endurvinnur og endurnýtir allt það sem fellur til í rekstri eins og mögulegt er, en fargar öðru á viðeigandi hátt.
A4 heldur orkunotkun í lágmarki og leitast við að draga úr mengun.
A4 leitast eftir að velja umhverfisvæna kosti umfram aðra við val á bílum.
A4 leitast við að starfsmenn séu ekki undir 16 ára aldri og er öllum lögum fylgt til hins ýtrasta.
A4 fylgir lögum og gildandi kjarasamningum hverju sinni og gilda ákvæði þess efnis um réttindi og skyldur s.s. vinnutíma, hvíldartíma, orlof, uppsagnarfrest og veikindaréttar. Trúnaðarmenn eru starfandi innan fyrirtækisins sem fulltrúar milli starfsmanna og verklýðsfélaga og er kosning þeirra samkvæmt gildandi lögum.
A4 leitast eftir því að tryggja starfsfólki sínu heilsusamlegt og öruggt vinnuumhverfi. Öryggisleiðbeiningar, handbækur og áætlanir eru til á öllum vinnustöðvum, ásamt því að öryggisfatnaður er notaður þar sem þess er krafist.
A4 hefur virka jafnréttisstefnu sem unnið er eftir og hlaut fyrirtækið jafnlaunavottun árið 2019.
Jafnréttisstefnu Egilsson ehf. er ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna, jafnri stöðu og virðingu kvenna og karla á vinnustaðnum. Jafnréttisstefnan byggir á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt 18. gr. laganna er henni ætlað að setja aðgerðabundna áætlun um hvernig starfsfólki eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19. – 22. gr. laganna.
A4 leggur bann við allri mismunum. A4 mismunar ekki fólki eftir, kyni, kynþætti, trúarbrögðum, aldri, fötlun, kynhneigð, þjóðerni, stjórnmálaskoðunum né neinum öðrum þáttum.
A4 leitast eftir að forðast hvers konar hagsmunaárekstra í viðskiptum sínum.
A4 leggur áherslu á að vinna ávallt gegn spillingu og stundi heilbrigða og heiðarlega viðskipahætti.